Projects

Spennandi myndlistarævintýri er í uppsiglingu á Siglufirði. Í smíðum er minnisvarði um þátt kvenna í íslensku atvinnu og efnahagslífi á síðustu öld. Vinnuferlið er opið almenningi og hægt að fylgjast með framvindu verkefnisins, því sem næst í rauntíma.
Höfundur listaverksins er Arthur Ragnarsson myndlistarmaður og smíðin fer fram á SR vélaverkstæði á Siglufirði eftir frummyndum og í umsjá listamanns. Í samráði við Síldarminjasafn Íslands er ætlunin að listaverkið verði staðsett á bryggjuplani sem reist verður í sjó við safnið í sumar.

Skúlptúrinn er unninn í Corténstál og myndar Þrjár kvennfígúrur sem standa við fimm síldartunnur. Form verksins eru skorin úr 6mm plötum og soðin saman. Stálið myndar síðan fína ryðhúð sem ver verkið og nánast stöðvar tæringu. Listaverkið er upplýst frá botni síldartunnanna og Þegar rökkva fer glitrar gullin spegilmyndin í sjónum. Ríkisstjórn íslands styrkir gerð minnisvarðans.


Islands regering har beslutat att bidra med 100,000€ till skapandet av ett minnesmärke över kvinnors prestation och betydelse för landets ekonomiska utveckling i förra seklet.

Monumentet är en idé av konstnären Arthur Ragnarsson, och det är planerat att konstverket ska placeras på en specialbyggd brygga i sjön på Siglufjörður på Islands nordkust nästa år. Skulpturen ska göras av specialstål som det arktiska klimatet inte klår på och skärs och svetsas ihop i maskinverkstäder på Siglufjörður.


The government of Iceland has decided to support the creation of a memorial to the role of “herring girls” in the economic and employment of Icelandic women in the last century with 100,000€.

The memorial is based on an idea of the artist Arthur Ragnarsson and will be placed on a specially built area at the Herring era museum in Siglufjörður on the northcoast of Iceland, next year, The artwork will be made of special steel, which can weather the arctic climate, and it will be constructed in machine engineering shops in Siglufjörður.


Myndirnar eru samsettar og tölvuteiknaðar og sýna hönnun skúlptúrsins í tengslum við valinn stað á Siglufirði. Tillaga myndlistamanns  er að minnisvarðinn samanstandi af skúlptúr úr járni og verði staðsettur á bryggjuplani úr tré. Skúlptúrinn myndar fimm síldartunnur og við tunnurnar standa þrjár síldarstúlkur og horfa út fjörðinn. Skúlptúrinn er skorinn og soðinn saman úr stálplötum. Miðað er við að verkið verði að öllu leyti unnið á staðnum af fagmönnum eftir frummyndum og í umsjá listamannsins sjálfs í nánu samstarfi við fyrirtæki og aðila á Siglufirði sem hafa áhuga og vilja til að koma að verkinu.

 

Hugmynd og útfærsla minnisvarðans er snertingin við sjóinn og útsýnið þaðan til fjallahringsins. Tillaga listamanns er að staðsetning minnisvarðans sé í sjó skammt frá Síldarminjasafninu. Byggt verði mannvirki bryggjuplan úti á firðinum allt að 10x20m að flatarmáli. Byggt verði á hefðbundinn hátt í tré og að aðgengilegt sé þangað frá landi. Við suðurendann er skúlptúrinn staðsettur (verkið snýr í norður) og við norðurendann má koma fyrir bekkjum og borði ásamt upplýsingaskilti. Minni bátar geta lagst að og þar geta einnig legið gamlir „kútterar“. Bryggjan er sökkull verksins og tengingin við sjóinn. Staðsetningin veitir pláss fyrir gesti og heimamenn á bryggjuplaninu, með tilheyrandi útsýni allan fjallahringinn og tækifæri til myndatöku við verkið með Hólshyrnuna í baksýn.

Þegar rökkva fer er verkið upplýst frá botni síldartunnanna og glitrar þá gullin spegilmyndin í sjónum svo sést langt að. Um þrenns konar lýsingu er að ræða. Uppljósum er komið fyrir í síldartunnunum og lýsa þau upp verkið og kasta bjarma á umhverfið. Niðurljósum er komið fyrir undir bryggjunni og lýsa þau upp sjóinn undir skúlptúrnum. Leiðarljós eru afmarkaðir ljósgjafar í slöngu eða sem stuttir staurar.

Amma mín Stefanía Sigmundsóttir fluttist ung að árum til Siglufjarðar frá Hofsós til þess að taka þátt í síldarævintýrinu eins og fjöldi verkafólks. Stefanía og stallsystur hennar stóðu við tunnurnar og söltuðu í törnum sem stundum vöruðu í 30 klukkutíma eða meira. Allt að helmingur útflutningstekna landsins var af síldarafurðum og mörg árin var ekki hægt að loka fjárlögum ríkisins fyrr en sýnt var hvað síldarsumrin á Siglufirði skiluðu. Kraftur og úthald fólksins sem tók þátt í þessum síldartörnum er að leiðarljósi við gerð minnisvardans.

Velkomin að fylgja gerð frummyndar verksins hér á þessari síðu. Einnig má fylgja gerð verksins frá frummynd til afhjúpunar á Facebook-síðu verkefnisins: Síldarstúlkan á Siglufirði. Þar verða færðar inn sögur og frásagnir frá síldarárunum ásamt myndum og öðru áhugaverðu af framgangi verkefnisins 2023.

Skúlptúrinn verður skorinn og soðinn saman úr stálplötum af SR-vélsmiðju Siglufirði. Corten-stálblandan er hægryðgandi og myndar fína ryðhúð á ysta lag málmsins sem ver stálið og nánast stöðvar tæringu. Rústrauður liturinn sem verkið mun bera minnir á litríkar svuntur síldaráranna og fer vel við gráan lit bryggjunnar. Einnig leiðir járnið hugann að handafli og áreynslu og tengir okkur líkamlega við verkið.

Efnið gerir kröfur um meiri einföldun í útfærslu fígúranna, fækka brotum og ná sem mestum krafti og árangri úr hverjum einstökum fleti verksins. Rada saman bognum og sléttum plötum og skapa samspil sem myndar fígúruna og kemur af stað hreyfingu. Völsunin á járnplötunum er jú bara í eina átt, hin áttin er bein, svo það er spurning hvernig má notast við það til að brjóta upp karakterinn og ná mjúkum línum og bogum á skemmtilegan hátt. Svo er líka að leifa sjálfu efninu, járnplötunum, að spila með og njóta sín í þessari efnislausn. Láta sjást hvernig þetta er skorið út og unnið á mismunandi hátt í hverri fígúru fyrir sig.



Mér finnst oft hentugt að nota leir til að átta sig á þrívíddarverkefnum, kropp, þyngd og ummáli. Einfalt og fljótlegt ad vinna í, breyta og gera skissur. Í hugmyndavinnuna fyrir Síldarstúlkurnar hef ég notað sérstakan leir sem er mjög hentugur í minni skala. Leirmyndin sem ég hef unnið fram er bara 30cm. á hæð en nóg til að hafa til hliðsjónar og átta sig á hlutföllum við gerð frummyndarinnar.

Nya AB Fabriken Pilen er hlutafélag í Asarum Svíþjóð stofnað 1986. Ég hef alltaf hringt í þá til að panta og það er gömul kona sem svarar í símann eftir smá stund. Hún talar með illskiljanlegum hreim en er mjög almennileg og þolinmóð. Ég hef gert mér í hugarlund að hún sé þarna ein í litlu rauðu húsi uppi í sveit, fari sér hægt, sýður og hrærir saman leirmaukið og hnoðar.


Pilens Proffslera er til í ýmsum litum og er hægt að nota til alls kyns líkanagerðar, hönnunar, skúlptúra, líkanasmíði, steypu, í kennslu, þéttingu móta o.fl. Þessi leir þornar ekki og er ekki hægt að herða. Þú getur hitað leirinn í hitaskáp eða ofni við 40°C. Leirinn er einnig bræðsluhæfur við 80°C en hægt er að endurnýta hann hvort sem hann hefur verið hitinn eða kældur. Engin sérstök geymsla er nauðsynleg og geymslutími er ótakmarkaður. Einfaldari þrif er með sápu og volgu vatni. Pilens Proffslera inniheldur leir í duftformi, vax, olíur og litarefni sem eru hvorki skaðleg umhverfinu né heilsu. Fæst í 1kg. umbúðum.

Frauðplastplötur eru mikið notaðar í byggingaiðnaði sem einangrun. Styrofoam og XPS pólýstýren er pressað pólýstýrenfrauð (XPS) hitaeinangrunarefni, svokölluð þrýstieinangrun sem hefur mun meira þrýsti-og rakaþol en hefðbundin plasteinangrun. Oft eru þessar plötur í bláum, fjólubláum eða gulleitum lit (Finnfoam). Helstu notkunarstaðir eru ofan á flöt þök, utan á sökkla og undir hellur á plönum og svölum. Plöturnar eru í stöðluðum stærðum og þykktum og hægt að líma saman í stærri einingar og byggja að vild. Frauðplastið inniheldur 98% loft og er endurvinnanlegt. Mjög auðvelt er að saga, skera, slípa og forma efnið með ýmsum verkfærum.

Maskinpapp (bókbandspappi) er endurunninn pappír sem kemur í pressuðum plötum. Plöturnar eru 2 og 3mm á þykkt og gráar á lit. Þetta er harður og þéttur karton sem hægt er að saga, skera og slípa. Einnig er hægt að beygja plötuna töluvert með því að bleyta upp með vatni til að ná föstum bogum og beygðum flötum.

Límið sem notað er má ekki bræða frauðplastið og getur heldur ekki verið of hart svo að það sé erfitt að vinna á því eða það skemmi út frá sér við átök. Límið þarf að þorna fljótt þannig að vatnsinnihald er ekki við hæfi í límingu á frauðplasti. Superfix er lím sem er mikið notað í byggingaiðnaði. Kemur í 300ml túbu sem sett er í sprautu. Borið er á límflötinn í strengjum eða dropum og flötunum þrýst saman. Til eru önnur heiti á lími með svipaða eiginleika. Límbyssur eru þægilegar og fljótlegar en sumar eiga til að hita límið svo mikið að frauðplastið bráðnar.

Síldartunnan er í originalstærð ca 76x50cm að ummáli. Ég stækka tunnuna aðeins þar sem verkið er hugsað aðeins stærra en raunstærð. Ég geri líkanið af tunnunni í hálfri stærð, í skala 1:2. Af teikninguni hér til vinstri má sjá mál í fullri stærð.

Tunnan er þá 86x59cm að ummáli. Málin eru í millimetrum:Hæð 860, Breidd 590, Botn Ø510.

Stafir eru í 6mm efni og eru samtals 12. Skornir í lengd 870 og stafbreidd er 120. Sjá á teikningu hvernig stafurinn beygist í miðjunni þar til 40mm eru í beina línu endana á milli.

Gjarðir eru í 3mm efni, Breiddin er 60 og samtals 4 ex. Gjarðirnar eru kónískar og skornar úr efninu í hring sem er Ø4000mm. Sjá útskýringu á teikningu. Efnislengd endagjarðarinnar verður þá ca 1620mm og búkgjörðin um 1780mm.

Trétunnan er bæði merkileg og falleg. Þessi aðferð, að raða stöfum i hring og spenna saman utan um botna var notuð löngu fyrir okkar tímatal í Evrópu þar sem nú er Frakkland.

Frá því að bændur á þessu svæði fóru að nota trétunnur undir vín hefur tunnan þótt hentug fyrir að flytja ýmislegt annað og fengið á sig mismunandi lögun. Snemma á miðöldum fóru tunnur að sjást hér á norðurlöndum og seinna þegar síldveiðin efldist með Hansasambandinu. Fyrstu vélskipin og ný tækni til fiskveiða opnuðu á stórfelldar síldveiðar upp úr aldamótum 1900 og við það varð sprenging í tunnusmíðinni og síldartunnan var kominn út um allt.

 

Við gerð líkansins hef ég Þessa stöðluðu síldartunnu til fyrirmyndar. Búkurinn er hógvær og karakterinn þolinn og praktískur.

Tunnan mín er þó frábrugðin að því leiti að stafirnir eru bara 12 og jafn breiðir frá enda á milli. Stafirnir eru beygðir aðeins á miðjunni og þegar þeim er raðað saman í hring myndast bumba á búkinn og millibil á milli stafa svo að ljósgeislar komist út.

 

Efnið í líkan af síldartunnu er þá auðvitað þessi hentugi bókbandspappi. Ég geri líkanið í hálfri stærð (skala 1:2) og nota 3mm efni í stafina.

Tunnusmiður er kallaður Beykir. Erlendra beykja á Íslandi er fyrst getið á 17. öld og er álitið að þeir hafi fyrst komið með einokunarkaupmönnunum. Þeir munu flestir hafa verið danskir, en íslendingar fóru fljótlega að læra iðnina. Meðal nafnkenndra íslenskra beykja má nefna skáldin Sigurð Breiðfjörð og Jón Magnússon.

Gerðar voru strangar kröfur um efnisþekkingu og verkkunnáttu beykjanna. Beykjastéttin á Íslandi varð aldrei mjög fjölmenn, enda var lítið um nýsmíði. Fyrst og fremst var um að ræða samsetningu og frágang á tunnum. Líklega hefur beykjarastéttin veriðstærst um 1930, en  þá voru samkvæmt manntali 117 sjálfstæðir beykjar, sveinar og nemar í iðninni.


Að raða saman stöfum í heila tunnu, raða saman tunnustöfunum í hring og setja gjarðirnar á var kallað að reisa tunnu.


Venjulega var talað um tvo botna í síldartunnu, efribotn og neðri-botn. Botnar voru oftast úr þrem stykkjum, alloft úr fjórum, sjaldan úr tveim, en fimm stykkja botn þóttu vart boðlegir. Botnaefni fundust í ýmsum lengdum, stundum í allt að 4-5 metra löngum borðum.

Botnarnir voru felldir í gróp í tunnustöfum sem kallaðist Lögg og sem var oftast v-laga. Laggir á íslenskum tunnum sem hagir menn smíðuðu til heimilisnota fyrr á öldum voru þó oftast rétthyrndar; af lögun þeirra var dregið nafnið á eyrnarmarkinu lögg. Orðið lögg var einnig notað um enda tunnustafa sem ganga út fyrir botnana, og ennfremur um hornið milli botns og stafs í tunnu, og um innihald íláts sem lítið var í.

 

Slagband kallaðist tunnugjörð úr járni, ýmist þykku flatjárni, t.d. svonefndu skeifnajárni, eða úr sívölu járni. Slagbandið var rekið niður á tunnur til að ná stöfum saman og halda þeim í skorðum meðan verið var að koma á þær venjulegum gjörðum.

 

Svonefnt sponsgat var borað á miðjan belg á trétunnum og hafður í því trétappi (spons) sem stóð dálítið út þannig að slá mátti hann úr þegar tunnan var pækluð. Gjarðasamskeyti áttu helst að vera á sama staf og sponsgatið. Í skipslest var sponsinn jafnan látinn snúa upp, og stóðu þá tré í báðum botnum lóðrétt ef rétt var unnið. Ávalt ætti að bora sponsgötin á tunnurnar áður en saltað er í þær. Það er fljótlegra og léttara og verður betur gjört en á fullum tunnum. Losna menn þá við að skemma síld við borunina, sem oftast skeður á fullum tunnum, þegar borinn, sem er of langur, skreppur ofan í síldina.

2023

Í byrjun árs 2023 hefst vinnan við módelin af síldarstúlkunum þremur sem ég héðan eftir kalla Fígúra 1, Fígúra 2 og Fígúra 3. Ég mun hafa leirverkin til hliðsjónar og eins og áður er sagt er skúlptúrinn í yfirstærð og mun ná um 200cm hæð. Fígúra 1 heldur á matardisk/saltdisk. Fígúra 2 heldur á tunnuhring. Fígúra 3 heldur í Fígúru 2.

Þetta verða ýmsar pælingar og vinnan fer fram bæði á teikniborðinu og fyrir höndum. Ég mun reyna að sýna hvernig miðar og útskýra hitt og þetta á þessu ferli.


Ákveðið var nýlega að frummynd væri gerð í raunstærð ( 1:1 ) vegna ofkostnaðar við 3D-scanning. Í stað þess verða tekin snið af líkaninu og færð inn í DXF-skrá í Autocad, enda fellur skúlptúrinn vel til þess í sínum einföldu sniðum. Stór hluti verksins verður skorinn út úr stálplötunum með plasmaskérara.

Gerð frummyndar er sem sagt bundið járninu og möguleikunum sem það býður upp á. Efnid sem notað er í gerð frummyndar þarf að geta lýst bæði sléttum og bogadregnum flötum.


Ég er að gera tilraunir með karton núna. Er svona að sjá hvað Það er hægt að beygja til að líkja eftir völsun stálsins í bogadregnum flötum líkansins. Annars mun ég nota frauðplast í fígúrurnar.

Vinnuhópar voru kallaðir LAG.  Til dæmis, tvær síldarstúlkur um að salta í eina síldartunnu. „Tvær í lagi!“ kallaði verkstjóri þegar lítið var orðið eftir í síldarkössunum. Þá áttu tvær að skera og leggja saman í tunnu. Lag í þessari eða líkri merkingu kemur t.d. fyrir í orðinu félag og nótalag, leggja lag sitt við o.fl. Komið úr norsku, sænsku og dönsku.

Þegar það voru tvær eða fleiri í lagi var talað um félagssöltun (tvær eða fleiri í félagi) en þegar það var ein í lagi var það sérsöltun.  

 

Á allra fyrstu árum síldarsöltunar á Siglufirði voru stundum saumaðar strigasvuntur til að nota við söltun. Síldarstúlkurnar höfðu þessar svuntur utanyfir síldarpilsin sín. Á síðari árum síldarsöltunar tíðkuðust heiðgular gúmmísvuntur. Hugsanlega gúmmíhúðaður segldúkur sem síðan var fernisborinn og þannig fengu svunturnar upphaflega þennan gula lit.

 

Heimasaumaðir síldarvettlingar voru eitthvað notaðir fram undir seinna stríð. Vettlingarnir voru úr lérefti eða skinni. Skinnvettlingar úr eltiskinni vörðu hendurnar vel fyrir átu en vildu verða hálir. Þó notuðu margar stúlkur þá til að verja hendur sínar. Gúmmívettlingar urðu ekki algengir fyrr en um eða eftir stríð og þóttu dýrir í fyrstu.

 

Lausar ermar til að hífa handleggjum síldarstúlkna, gengu fram yfir hanska og lágu þétt að þeim. Saumaðar ú lérefti eða þunnum segldúk og olíuþornar. Borin línolía, fernisolía á til að þétta dúkinn og verja gegn fúa. Síðar voru ermar gerðar úr gúmídúk.

 

Síldarstúlkurnar voru í gúmmístígvélum og með marglita klúta bundna um höfðuðið við söltunina sem nefndir voru skýluklútar eða skuplur. þær voru með hnífa til verkunar og síldardisk, matardisk úr járni, oftast emeleraður, einstaka sinnum úr plasti, sem var notaður til að strá salti yfir síldarlögin í tunnunni.

First Lady


Þó að ég hafi vandað mig nokkuð vel við leirmódelið , finnst mér, þá er það ýmislegt sem maður rekst á núna þegar á hólminn er komið. Ég hef aldrei verið mikið fyrir millimetrana en their eru farnir að skipta máli núna í fullri stærð. Eðli byggingarefnisins er óteygjanlegt og miskunnarlaust. Það er orðið nokkuð snúið að gera sér grein fyrir beygjum og bogum, og í hvaða áttir fletir vilja fara.



 

Ég byrja á Fígúru-1. Planið er að nýta mér frauðplastið í slétta fleti líkansins og í grind undir pappaplöturnar. Þannig get ég  tekið mið við beygjur og boga. Allir þessir vinklar koma líka að góðum notum. Þá erum við að tala um 360 gráður í hring. Vinkill sem er 90 gráður er kallaður hornréttur.

 



Þegar ég var lítill fékk ég pláss á sumrin hjá föðurbróðir mínum, Guðmundi Rúnari sem gerði út bát frá Bíldudal. Ég var eiginlega í uppfóstri hjá honum fyrir vestan. Guðmundur kenndi mér sjómennsku, um dýralífið í kringum okkur og um samfélag mannanna. Ég lærði á áttavitann og um allar þessar gráður hingað og þangað. Það eru til sérstök gráðuverkfæri sem gott er að hafa til að ná tökum á hinum ýmsu vinklum.

 


Svona bambupinna sem notaðir eru á grillið er líka hægt að nota til að festa lauslega saman parta af frauðplasti.






Þessar þykku frauðplastplötur er best að saga. Það myndast að vísu mikið sag sem er viðloðandi og dreifist gjarnan út um allt.

Ég er ekkert að slípa mikið með sandpappír, tálga þetta mestmegnis með hníf eftir sögina. Einu sinni var ég að vinna við húsamálun. (Málaði meðal annars Stjórnarráðshúsið hvítt að utan). Málarameistarinn kenndi mér að mála með rúllu með löngu skafti og að taka langar strokur með pensli. Svo var það sparslið. Að leggja á og draga úr parslinu þannig að það varð óþarfi að slípa.

Fljótlega fer að safnast umframefni og sag á gólfið í kringum mann. Það myndast ryk þegar maður slípar og þá er ágætt að vera með grímu svo að maður sé ekki að anda þessum plastögnum að sér. það virðist þó ekki vera neitt sérstaklega hættulegt okkur þetta plast. Það eru rön fyrir því að við borðum eitt greiðslukort á viku án þess að vita af. Við fáum í okkur míkróagnir af plasti aðallega með vatninu sem við drekkum. Plast er orðið hluti af vistkerfi jarðar og það þykir bara fara vel í okkur. Plastið flýtur milli heimsálfa í sjónum og safnast saman í víðáttumiklar eyjar í allskonar litum.

Mig grunar að hann langafi minn Sumarliði skósmiður hefði ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af þessum stígvélum mínum í stærð 63. En mér finnst samt að ég hafi náð sérlega mjúkum kvenlegum þokka í skósmíðinni þó að hér séu ekki neinir Öskubusku-skór á ferdinni.

Second Lady

Þessi aðferð með að blanda pappaspjöldum og pólístýren virkar vel. Ég hef notað 30mm þykkar frauðplötur þannig að hnífurinn nær vel í gegn en það hefði verið nóg með 20mm. Léttara að vinna úr og ódýrara, og alveg nógu sterkt í stofn og grind.







Ég hafði hugsað mér að verkefnið væri meira um að skúlptera og skera út og skaffaði þess vegna þykkara efni. En þegar ég fór að byrja á þessu og velta fyrir mér því sem ég hafði í höndunum sá ég frammá að verkefnið væri mera um að byggja skrokka með rifbeinum eða janvel báta.

Þessar frauðplötur eru til í ýmsum litum eins og áður er sagt, og það er smá munur á sem maður finnur fyrir sem Nörd. Það er þó ekkert sem tekur því að nefna hér að öðru leiti en að þessar bleiku/fjólubláu frauðplötur eru í uppáhaldi hjá mér í þessu verkefni.













Mér finnst svona eðlilegt að byrja á svuntunni/pilsinu. Það er stærsti hluti fígúrunnar og mikilvægt að  heppnist vel að beygja til pappaplöturnar. Ég nota svamp til ad bleyta pappann öðru megin og maður kemst upp á lagið með magnið. Spjaldið bognar sjálfkrafa þegar önnur hliðin þenst út og svo hjálpar maður til með að ná beygjunni og setur í spennu.

Minnisvarðar um síldarstúlkuna eru hér og þar á norðurslóðum og furðu líkir hver öðrum.


Svo að dæmi séu tekin er í Bekkjarvik á suðvestur strönd Noregs skúlptúr af síldarstúlku í náttúrlegri stærð. Sildajenta stendur þar ein, beint á hafnarbakkanum.


Síldarstúlkan í Ålesund, Noregi er líka ein í náttúrulegri stærð og stendur á steinplötu sem er í þreps hæð.


Síldarstúlkurnar á Skotlandi, á South Beach og við höfnina í Stornoway, Isle of Lewis eru í náttúrulegri stærð, um 170cm.


Einnig þessi í Fish Quay North Shields í Skotlandi.


Síldarstúlkan á Raufarhöfn sem afhjúpuð var 2012 stendur ein við tunnuna eins og hinar.

Third Lady

Síðasta síldarstúlkan er hátt í hæð við mig. Ég velti mikið fyrir mér skala verksins í undirbúningsvinnunni og hef líka fengið ýmsar ráðleggingar og tillögur.


Minnisvarðar eru útfærðir á ýmsa vegu eftir ýmsum ismum, tíðaranda og pólitískum hugsjónum. Svo er hefð fyrir því að setja myndastyttur á stalla sem gnæfa hátt yfir umhverfið.  Flestar þessar styttur eru af karlmönnum, oft með skuggalega ferilskrá.

Ég er ekkert með neitt hik lengur við starfið og núna á lokaáfanganum er ég farinn að þekkja efnið vel. Ég get því einbeitt mér að ná karakternum í fígúrunni.


Fígúra 3 er sú minnsta og mikilvægasta. Það er hún sem kemur af stað hreyfingu verksins. Hún svona kíkir fram og heldur í svuntuna sína með vinstri hendi. Með þeirri hægri hnippir hún í vinkonuna. Fígúra 2 lítur því upp og horfir í sömu átt til að sjá hvað þar er á ferð. Fígúra 1 bregður við og snýr sér í hálfhring til að sjá hvað er á seiði. Þær horfa nú allar í norðurátt og sameinast sem ein í augnablikinu.

Síldarstúlkurnar unnu oft í lagi þó að viss samkeppni hafi verið á milli einstaklinga. Og þegar á heildina er litið er það jú framlag allra einstaklingarna sem unnu saman á bryggjuplaninu sem minnisvarðinn heiðrar. Þess vegna, og til að setja þetta í mynd samtaka afls þurfa að vera fleiri en einn einstaklingur staðinn að verki.

Spa & Care

Þá er komið að lokameðferð og balsameringu. Síldarstúlkurnar munu dvelja um tíma í vélaverkstæði SR við glóandi járn og neistaflug.


Ég bý þær undir það umhverfi og sé til að verja þær við hitanum.


Ég ber á þær lím- og gifsblöndu, venjulegt hvítt trélím og módelgifs, og þegar blandar storknar myndast þunn og hörð skel.


Maður þarf að vinna hverja blöndu rösklega þar sem gifsið vill fara að brenna fljótlega.


Ég endurtek þessa meðferð nokkrum sinnum til að fá sæmilega þykkt og að endingu mála ég síldarstúlkurnar í fallegum og aðlaðandi gráum blæ.

Listaverkið táknar ömmur og mömmur okkar sem stóðu vaktina í öllum veðrum á síldarplaninu, daga sem nætur. Þessar konur ólu okkur líka upp, bökuðu pönnukökur handa okkur og hugguðu okkur. Líkamleg snerting og nálægð er þar af leiðandi eitt höfuð tema verksins og ræður útfærslu minnisvarðans.

Frá fyrstu skissum er verkið mótað í höndum listamanns til gerð frummynda. Smíði verksins er í höndum járn og vélsmiða sem skera út járnið og sjóða saman sniðin. Sökkull verksins er í höndum bryggjusmiða sem reka niður gamla símastaura í sjóinn og leggja dekkið. Ljósabúnaður og rafmagn er í höndum rafvirkja og blómaskreyting í fangi Síldarstúlkunnar í höndum bæjarbúa.

Snið

Síldarstúlkurnar verða smíðaðar í rétt rúmlega raunstærð og njóta sín á bryggjuplaninu ásamt okkur sem komum að.


Bryggjuplanið er sökkull verksins og er nógu stór svo að ferðafólk sem kemur með rútum geti safnast saman kringum verkið og tekið hópmyndir.

 



Við komumst þétt að verkinu, hreifum okkur innan um síldarstúlkurnar og getum skoðað hvernig verkið er skorið og soðið saman.


Við getum fært síldarstúlkunum blóm, sest niður við verkið og drukkið kaffi á góðum degi.


Við getum tekið myndir af hvort öðru meðal síldarstúlknanna með Hólshyrnuna í baksýn og jafnvel Síldarminjasafnið í baksýn öðru megin frá.


Síldarstúlkurnar eru á meðal okkar og þannig myndast áþreifanleg tenging á milli fortíðar og nútíðar.










Minnisvörðurinn er reistur í anda samvinnu, til að skapa nálægð við söguna, band á milli kynslóða og til að minna okkur á lífskraftinn, ástina og þrautseigjuna sem við erfðum.

Bon Voyage

Ég er sérfræðingur í að meðhöndla og pakka listaverkum þekktustu listamanna heimsins.


það hefur verið hluti af starfi mínu við Listasafn Gautaborgar að sjá til þess að rétt sé farið að svo að engin hætta sé á ferðum þegar færa þarf til verk eða flytja milli heimsálfa.

To be continued...

Komnar heim


Eftir mánaðar ferðalag yfir sjó og land eru Síldarstúlkurnar komar heim til Siglufjarðar.

Tunnurnar 5


Tunnusmíði hófst fyrir nokkru hjá SR Vélaverkstæði Siglufirdi.

Pakkað upp


Ýmsir sérfræðingar mættir og málin rædd

Byrjað á fígúrunum


Síldarstúlkurnar eru í 140 brotum sem þarf að valsa, raða saman og sjóda.

Fígúra 2


Síldarstúlka númer tvö heldur á tunnuhring. Byrjað er að valsa.

Fígúra 3

Fígúra 3 er sú minnsta. Það er hún sem kemur af stað hreyfingu verksins. Hún svona kíkir fram og heldur í svuntuna sína með vinstri hendi. Með þeirri hægri hnippir hún í vinkonuna. 

Botnplata


Teikning af sökkulplötu prentud út í 1:1 og lögd á gólf vélaverkstaedisins. Tunnum og fígúrum stillt saman í stödu eftir teikningunni.


Tunnur, síldarstúlkur og allt verður soðið niður í heild sinni á 12mm þykka sökkulplötu. Þyngd einnar síldarstúlku er um 250kg. Dreifa þarf álaginu á tréplanka bryggjunnar yfir stærra svæði en sem um nemur skósóla hvers og eins fígúru. Sökkulplatan verður skorinn þannig að fylgt verður útlínum verksins eftir í bogadregnum línum og platan boltud niður á bryggjuna þar sem komist verður að á milli stígvéla og milli tunna. Síldar liggja á dreif og hylja boltahausana og sökkulplötuna. Heildarútlitið verður þá að verkið stendur beint á bryggjunni og greitt aðgengi þétt upp að verkinu.

 

Sökkulplatan kemur til SR 12 júní cirkabát. Þá vikuna verður lögð síðasta hönd á verkið, gengið frá festingum og flutningi. Í vikulok, föstudag 16 júní verður verkið fært út úr húsi til að veðrast og fá lit.

To be continued.....